Höfundur Pálmi V. Jónsson
Pálmi V. Jónsson er prófessor emeritus við Læknadeild Háskóla Íslands og kunnur lyf- og öldrunarlæknir sem starfað hefur í aldarþriðjung á Íslandi og lagt mikla áherslu á þjónustu, rannsóknir og þróun á þessu sviði. Nú starfar hann sem ráðgjafi í öldrunarlækningum við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðis.
Pálmi var við framhaldsnám í öldrunarlækningum við Harvard háskóla. Hann var forstöðulæknir lyflækninga -og endurhæfingarsviðs Sjúkrahúss Reykjavíkur, síðar sviðsstjóri öldrunarsviðs Sjúkrahúss Reykjavikur og sama sviðs á Landspítala til 2009 og frá þeim tíma yfirlæknir öldrunarlækningadeildar Landspítala til starfsloka þar 2022. Á sama tímabili var hann fyrst dósent í öldrunarlækningum en prófessor frá 2008. Pálmi beitti sér fyrir stofnun Rannsóknarstofu Háskóla Íslands og Landspítala í öldrunarfræðum árið 1999 og var formaður stjórnar til 2018. Hann vann að stofnun og var í stýrihóp öldrunarrannsóknar Hjartaverndar, en hún var samvinnuverkefni með bandarísku öldrunarrannsóknarstofnunarinnar. Þá hefur hann verið félagi og um árabil í stjórn í alþjóðlegum rannsóknarhóp, InterRAI, en það er fjölfaglegur hópur vísindamanna sem hafa unnið víðtæka þróunar- og rannsóknarvinnu m.t.t. langvinnar sjúkdóma, sjá www.interrai.org. Pálmi hefur setið í fjölda nefnda og birt fjölmargar vísindagreinar og bókakafla.
Pálmi er ráðgjafi Aflvaka við uppbyggingu heilbrigðis- og öldrunarþjónustu í nýrri íbúðabyggð við Gunnarshólma.
