Heilbrigðisþjónustan eins og hún er útfærð byggir enn á þeirri gömlu hugmynd að fólk glími fyrst og fremst við einn sjúkdóm í senn. Því geti einyrkjar, hvort heldur sem er í heilsugæslu eða annarri sérhæfðri þjónustu, eða sérhæfðar deildar sjúkrahúss annast viðfangsefni skjólstæðinganna. Slík hugmyndafræði fellur ekki vel að þörfum eldra fólks sem glímir við langvinn fjölveikindi. Verkaskipting hinna þriggja stoða heilbrigðisþjónustunnar, heilsugæslu, samfélagssérfræðiþjónustu og sjúkrahúsa er einnig í veigamiklum atriðum óljós og óskipulögð. Mikilvæg þjónusta við skjólstæðinga hefur oft vaxið að frumkvæði og á forsendum einstakra veitenda heilbrigðisþjónustunnar. Þessi framvinda hefur leitt af sér að þjónustan er brotakennd þegar litið er á hana út frá heildarhagsmunum skjólstæðinga.
Margir af stórum sigrum læknisfræðinnar eru fólgnir í umbreytingu bráðra lífshættulegra sjúkdóma í langvinna. Aðrir langvinnir sjúkdómar tengjast aldri og gera sig nú gildandi þar sem ævilíkur hafa vaxið jafnt og þétt í áratugi. Gildi forvarna er óumdeilt og ábyrgð einstaklingsins sjálfs á eigin heilsu á miðjum aldri og síðar mikil. Sá skilningur hefur vaxið. Því skal einnig haldið til haga að heilbrigðisþjónustan hefur skilað stórkostlegum árangri og metnaður til góðra verka er augljós. En tækifærum heilbrigðisþjónustunnar til meðferðar og stuðnings fjölgar stöðugt og hefur farið fram úr afkastagetu þess skipulags sem nú er við lýði.
Það eru langvinnir sjúkdómar sem knýja áfram stóran hluta heilbrigðisþjónustunnar nú og eru einnig stofninn að þörfinni fyrir öldrunarþjónustu. Blindi bletturinn í útfærslu öldrunarþjónustunnar liggur í því hvernig umsýslu langvinnra sjúkdóma og fjölveikinda er háttað. Hvar á greining að fara fram? Hvernig er eftirfylgd best útfærð og hver annast hana? Einnig er nauðsynlegt að skýra verkaskiptingu hinna þriggja stoða heilbrigðisþjónustunnar í hverri sjúkdómaþyrpingu fyrir sig. Hlutfallslega ætti þáttur einyrkja að minnka en teymisvinnu að vaxa.
Langvinnir sjúkdómar vara mislengi, eftir alvarleika, framvindu og lífshættu, frá nokkrum mánuðum eða árum upp í áratugi. Margir langvinnir sjúkdómar eru formlega flokkaðir í stig eitt til fjögur eftir framvindu einkenna, undirliggjandi meinalífeðlisfræði og eða áhrifum á færni. Þannig er almennt talað hjálplegt að tala um áhættuþætti, fyrsta stig sem er greiningarstig, annað stig sem framvindu án mikilla einkenna eða færnitaps, þriðja stig með vaxandi þunga einkenna eða tíðum versnunum og loks fjórða og alvarlegasta stigið með viðvarandi einkennum, færnitapi og yfirvofandi lífsógn.
Langvinnir sjúkdómar á efri árum geta verið stakir eða safnast í þyrpingar og þær algengustu eru: hjarta- og æðasjúkdómar, lungnasjúkdómar og kæfisvefn, nýrnasjúkdómar, sykursýki og ofþyngd, krabbamein, beinþynning, slitgigt, taugahrörnunarsjúkdómar sem snerta hreyfifærni og vitræna getu, geðsjúkdómar og fíkn (áfengi, róandi- og verkjalyf) auk augnsjúkdóma og heyrnarskerðingar.
Hvert stig hinna langvinnu sjúkdóma og einstakir sjúkdómar kalla á mismunandi framlag hinna þriggja meginþátta þjónustunnar. Til að ná sem bestum árangri, lífsgæðum, skilvirkni og hagkvæmni þarf að rýna hvern og einn sjúkdóm og hvert stig sjúkdómsins. Í hverri og einni útfærslu á þjónustunni þarf að tryggja að réttur einstaklingur sé á réttum stað í þjónustukeðjunni og fái viðeigandi þjónustu á hverjum tíma. Þannig þarf að skoða gaumgæfilega alla þætti þjónustunnar, aðlaga hana og samhæfa að heildarþörfum skjólstæðinganna og tryggja aðgengi án tafa. Á fyrri stigum geta stakir sérfræðingar í samfélagi haft mikilvægt framlag í greiningu og meðferð en eftir því sem sjúkdómabyrði þyngist verður teymissvinna fagfólks að koma til, auk skipulegra verkferla. Þjónusturof má ekki henda þar sem það langveikt eldra fólk er berskjaldað og getur hrakað hratt.
Í ljósi þessa verða heilbrigðisyfirvöld og sjúkratryggingar að skoða heildarskipulagið og semja um verkaskiptingu sem mætir þjónustuþörfum hvers og eins einstaklings á hverjum tíma á skilvirkan og hagkvæman hátt. Það þarf að negla niður með samningum hvaða verkefni eiga heima á legudeild eða göngudeild sjúkrahúss, hvað hjá sérfræðingi utan sjúkrahúss og hvað í heilsugæslu. Hvenær geta stakir læknar leyst málin og hvenær er þörf teymis til að auka heildarafköst, skilvirkni og gæði? Hvað heyrir til friðar hvers og eins þáttar í fyrstu greiningu og hvenær færast einstaklingar milli þessara þjónustuþátta eftir framvindu sjúkdóma? Slíka greiningarvinnu þarf að gera fyrir allar sjúkdómaþyrpingar efri áranna með aðferðafræði skipulags- og verkfræði. Að borðinu þurfa að koma faglegir leiðtogar sjúkrahúss, sérfræðiþjónustu utan sjúkrahúsa og heilsugæslu. Hver og einn þjónustuaðili ætti fyrst og síðast að gera það hann væri best til fallinn. Tryggja þarf skjótt aðgengi að nýgreiningu og fyrstu meðferð og eftirfylgd í framhaldinu. Það getur vel átt við að greining og fyrsta meðferð sé á einni hendi en eftirfylgd á annarri hendi, oft í formi teymisvinnu.
Allur undirbúningur að endurnýjað þjóðarsjúkrahúsi var og er gríðarlegur. Það þarf að snúa við öllum steinum og sýna sambærilega fagmennsku og einbeitingu í endurskoðun heilbrigðisþjónustu við eldra fólk með langvinna sjúkdóma á samfélagsstigi.
Pálmi V. Jónsson, lyf og öldrunarlæknir, prófessor emeritus við Læknadeild Háskóla Íslands.