Efri árin eru allt að því þriðjungur mannsævinnar. Heilsubrestur á efri árum drífur þörfina fyrir öldrunarþjónustu á öllum stigum. Heilsa og færni eldra fólks er breytileg milli einstaklinga en breytist einnig með tímanum hjá hverjum og einum. Þegar veikindi og færnitap eru komin á það stig að fólk þarf utanaðkomandi stuðning frá heilbrigðisþjónustunni og eða ættingjum er venjulega um fjölveikindi og fjöllyfjameðferð að ræða auk erfiðleika í athöfnum daglegs lífs. Þá á fjölfagleg teymisvinna við með þátttöku lækna, hjúkrunarfræðinga, sjúkra- og iðjuþjálfara og eftir atvikum annarra heilbrigðisstétta og félagsþjónustu.
Þá er og mikilvægt að upplýsingaöflun sé ítarleg og samræmd. Það hefur margvíslega kosti að upplýsingum sé ekki aðeins safnað í sjúkraskrá heldur einnig í gagnagrunn. Í öldrunarþjónustunni er til rafrænt matstæki, sem hefur bæði gildi og áreiðanleika. Slík tæki hafa verið þróað af interRAI fyrir heimahjúkrun, bráðasjúkrahús og hjúkrunarheimili og er til á íslensku í rafrænu formi. Nýleg úttekt í Ástralíu á öllum þekktum matstækjum fyrir samfélagsþjónustu sýndi að þetta tæki væri það besta sem völ er á. Tækið er nú notað fyrir alla íbúa sem njóta heimahjúkrunar á Nýja-Sjálandi, Hong Kong, Finnlandi, Belgíu, nær alls staðar í Kanada og í yfir helmingi fylkja Bandaríkjanna. Með því að matstækið er notað víða um heim, þá opnast möguleikinn á samanburði milli landa sem getur sýnt styrkleika og veikleika sem læra má af.
Stór kostur er að upplýsingum er safnað einu sinni en þær má nota á magvíslegan hátt af mismunandi hagaðilum. Hvernig má það vera? Tækin eru fyrst og fremst þróuð fyrir þá fagaðila sem starfa við meðferð, endurhæfingu og umönnun í nærumhverfi einstaklingsins. Hagur skjólstæðingsins er að fagfólkið fái í hendur ítarlegar upplýsingar og geti þá á markvissan hátt sett upp meðferðaráætlun fyrir hvern og einn einstakling og tryggt að ekki sé litið fram hjá mikilvægum þáttum í veikindum skjólstæðingsins. Síðan er hægt að fylgja skjólstæðingi yfir tíma. En fleiri hafa hag af upplýsingunum:
- Þeir sem stýra þjónustueiningu, svo sem svæði í heimaþjónustu/hjúkrun, fá heildræna sýn á viðfangsefnin, umönnunarþyngd og gæði.
- Sjúkratryggingar sem greiða fyrir þjónustuna fá yfirlit yfir umönnunarþyngd og gæði á landsvísu.
- Embætti Landlæknis fær gæðavísa til eftirfylgdar og
- Heilbrigðisráðuneyti sem skipuleggur öldrunarþjónustuna og setur stefnuna getur lesið úr gögnunum heildsætt. Þannig má greina tækifæri til nýsköpunar og þróunar á samfélagsþjónustunni og fylgja síðan breytingum eftir með tilliti til árangurs.
Til þess að fá þann hag af upplýsingatækni sem þessari þarf lágmarks utanumhald. Það þarf að kenna á matstækin sérstaklega á einum degi, vinna með öll gögn í rauntíma og upplýsa alla hagaðila reglulega auk þess að framfylgja gæðastefnu.
Notkun einstaklingsmiðaðrar nálgunar á tiltekna sjúkdómaklasa krefst samsetningar stórra faraldsfræðilegra gagna. Til að útfæra öldrunarþjónustu á þann besta hátt sem kostur er, þá er mikilvægt að safna ítarlegum gögnum um sjúkdóma hvers og eins einstaklings, virkni, lífsstíl, félagsauð, heildrænu mati á viðfangsefnum sem einstaklingurinn glímir við, lyfjaslista og afdrifum í rauntíma. Þá verða til gagnaskrár fyrir allt eldra fólk.
Notkun gervigreindar verður innan tíðar lykill að því að finna sjúkdómaklasa til að bera kennsl á mögulegar samsetningar einstakra þátta sem liggja að baki langvinnum sjúkdómsþyrpingum og greina bestu meðferðar- og umönnunarferla. Verkefnið nú er að rýna í þaula hvaða gögnum bæri að safna og hefja gagnaöflun til þess að geta útfært öldrunarþjónustuna sem mest má verða á persónulegan hátt og sem lengst í formi samfélagsþjónustu. En einnig til að bæta hjúkrunarheimilisþjónustu verði hennar þörf.
Pálmi V. Jónsson, lyf og öldrunarlæknir, prófessor emeritus við Læknadeild Háskóla Íslands.