Möguleikar eldra fólks sem glímir við alvarleg veikindi og vill búa á eigin heimili fara að miklu leiti eftir þeim stuðningi sem því stendur til boða. Sá stuðningur getu verið frá eigin fjölskyldu og eða vinum og eða frá formlegu þjónustunni, einkum heimahjúkrun og félagsþjónustu.
Formlega þjónustan er almenns eðlis og í fremur stífum skorðum. Heimahjúkrun og félagsþjónusta er samþætt í Reykjavík en ekki annars staðar á höfuðborgarsvæði. Aðrir faghópar koma ekki að heimþjónustunni með skipulegum hætti og þjónustan er veitt að stofni til á morgunvakt og kvöldvakt, mest á tímanum 08 til 22. Flestir fá þjónustu einu sinni til tvisvar á dag og eftir meðferðaráætlun sem er skipulögð. Tiltölulega fáir fá þjónustu frá tveimur aðilum í einu og sömuleiðis er mjög fáir af heildinni með þjónustu þrisvar á dag, hvað þá fjórum sinnum. Einungis eru tveir sjúkraliðar sem sinna þjónustunni á nóttunni í Reykjavík og þá eftir skipulagðri áætlun.
Ekki er reiknað með viðbragði heima við óvæntum frávikum eða atvikum. Þá er stuðst við viðbragð við öryggishnöppum annars vegar og hins vegar við Læknavakt höfuðborgarsvæðis. Læknirinn þekkir ekki sjúklinginn, nema ef væri fyrir tilviljun, og er ekki með lifandi aðgengi að sjúkraskrá. Því er algengt viðbragð að senda fólk á bráðamóttöku LSH. Við þetta bætist að skipulag heimahjúkrunar og félagsþjónustu er miðlægt en aðrir faghópar eru á hinum ýmsu heilsugæslu- og félagsmiðstöðum höfuðborgarsvæðisins og samband milli fagaðilanna takmarkað og brotakennt.
Í umsóknum um varanlega dvöl á hjúkrunarheimili er algengur rökstuðningur að nú þurfi skjólstæðingurinn meiri þjónustu en hægt er að veita í heimahúsi. Oft er um að ræða ágiskun af hálfu fagfólks á LSH og tekur þá mið af þjónustunni eins og henni er lýst að ofan. En hvað ef hægt væri að veita öflugri og öruggari þjónustu heima allan sólarhringinn? Ég fullyrði út frá reynslu að þá gætu mun fleiri verið heima lengur á eigin heimili en tilfellið er nú. Myndi fólk kjósa það? Ekki allir en margir, væri upplýst mat af minni hálfu. Eftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu fer oft eftir framboði. Ef aukin, bætt og örugg þjónusta heima er ekki í boði, þá leitar fólk eftir því að komast á hjúkrunarheimili og beinlínis neyðist til þess eftir hreyfingarlitla dvöl á sjúkrahúsi sem verður kornið sem fyllir mælinn. En ef öflug samþætt sólarhringsþjónusta væri í boði liti málið öðruvísi við einstaklingi og fagaðilum og lengri dvöl heima með öflugum stuðningi væri raunhæfur kostur. Ef slík heimaþjónusta tryggði fólki ekki möguleikann á að dvelja heima allt til loka, þá væri hægt að stytta dvalartíma þess á hjúkrunarheimili.
Hvernig væri skipulag Sólarhringsþjónstu Heilsugæslunnar Heima? Hugmyndin væri ekki ósvipuð hjúkrunarheimilisútfærslu. Hópur skjólstæðinga er afmarkaður við ákveðinn fjölda á hverjum tíma. Fólk væri tekið inn í þjónustuna að uppfylltum skilmerkjum. Í upphafi yrði farið ítarlega yfir skjólstæðinginn eftir hugmyndafræðinni um heildrænt öldrunarmat. Þá væri hver og einn sjúkdómur metinn og meðferð aðlöguð svo sem best mætti vera, en það innifæli lyfjarýni. Öll hjálpartæki væru til staðar og endurhæfingu hefði verið beitt eða væri beitt samhliða annarri meðferð heima. Farið væri yfir heilsufar og horfur með skjólstæðingi og fjölskyldu snemma í þjónustunni og meðferðarmarkmið skilgreind. Öryggistæki væru með beint sambandi við vakthafandi hjúkrunarfræðing á öllum tímum sólarhrings. Fjöldi heimsókna og tímasetningar færi eftir persónulegum þörfum hver og eins. Læknir, einn eða fleiri, sem þekkti vel til hópsins og annaðist hann að hluta eða öllu leiti að deginum væri á bakvakt og hefði lifandi aðgang að sjúkraskrá á öllum tímum sólarhrings. Auk hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða væru læknir og sjúkraþjálfarar hluti af teyminu með greitt aðgengi að öðrum fagstéttum svo sem næringarfræðingi, klínískum lyfjafræðingi, iðjuþjálfara og sálfræðingi, auk annarra eftir þörfum.
Það er nærri lagi að 2000 manns njóti heimahjúkrunar á höfuðborgarsvæði á hverjum tíma. Hófleg áætlun gæti gert ráð fyrr því að 150-200 manns væru alvarlega veikir, þar sem framhaldsdvöl heima væri háð auknum stuðningi og öryggi fram yfir það sem nú er í boði. Þessi hópur væri þá markhópur fyrir Sólarhringsþjónustu Heilsugæslunnar Heima. Þegar komið væri að þolmörkum þeirrar þjónustu væri hægt að sækja um Færni- og heilsumat að heiman og fólk lifað heima þangað til að dvöl kæmi. Til að skjóta frekari rekstrarlegum stoðum undir Sólarhringsþjónustu Heilsugæsunnar Heima mætti hugsa sér aðra markhópa. Annar þeirra væri fyrri skjólstæðingar heimahjúkrunar sem eru að útskrifast af sjúkrahúsi heim veikari en hann eða hún var fyrir og þyrftu nánari eftirfylgd fyrst eftir útskrift uns þeir gætu nýtt sér hefðbundna heimahjúkrun á ný. Skilin milli sjúkrahúss og samfélags eru þekkt áhættusvæði þar sem ýmislegt getur farið úrskeiðis. Hinn hópurinn gæti verið fólk í hreinni líknandi meðferð sem kysi að lifa heima allt til andláts í stað þess að deyja á líknardeild.
Útgjöld til heimahjúkrunar eins og við þekkjum hana í dag er um það bil 8% af því sem varið er til hjúkrunarheimilisþjónustu á Íslandi, en sú upphæð í ár er áætluð 72 milljarðar á þessu ári. Á Norðurlöndum er varið mun meira fé í heimahjúkrun og þjónustu en hér á landi. Rekstur á 90 manna hjúkrunarheimili er nærri 1.5 milljarðar á ári. Hafa mætti þá upphæð til viðmiðunar þegar mönnunar- og þjónustumódel væri samið fyrir Sólarhringsþjónustu Heilsugæslunnar Heima. Vænta mætti að Sólarhringsþjónusta Heilsugæslu Heima yrði hagkvæmari. Til að byrja með mætti útbúa eina slíka þjónustueiningu fyrir 90 einstaklinga á hverjum tíma og nýta sem módel sem mætti stiga upp og aðlaga í ljósi reynslu. Þessi nálgun er líkleg til að bæta lífsgæði og öryggi þeirra sem kysu hana og einnig til að draga úr tilvísunum til bráðamóttöku, stytta legutíma þeirra sem leggjast þyrftu inn tímabundið, svo og að vera liður í að draga úr þrýstingi á byggingu hjúkrunarheimila.
Pálmi V. Jónsson, lyf og öldrunarlæknir, prófessor emeritus við Læknadeild Háskóla Íslands.