Fjöllyfjameðferð

29. janúar, 2025

Fjöllyfjanotkun er skilgreind sem samtímis notkun margra lyfja af einum einstaklingi.

Fjöllyfjameðferð leiðir til aukinnar áhættu á aukaverkunum og skertri meðferðarheldni. Algengi langvinnra sjúkdóma tvöfaldast á hverjum fimm árum frá 65 ára aldri í samfélaginu og því vex fjöllyfjameðferð samsvarandi í algengi og umfangi. Áttatíu og fimm ára manneskja getur hæglega verið með sex sjúkdóma og tekið tíu lyf. Sumir minna, aðrir meira. Ég tel fjöllyfjameðferð ígildi sjúkdóms vegna þeirra neikvæðu afleiðinga sem slík meðferð getur mögulega haft í för með sér.

Umræða og skilningur á fjöllyfjameðferð hefur aukist og er nú lögð áhersla á mikilvægi einstaklingsmiðaðrar lyfjameðferðar þar sem viðurkennt er að aldraðir eru ekki einsleitur hópur og að áhrif fjöllyfjameðferðar geta verið margvísleg. Rannsóknir hafa bent á lykilþætti sem stuðla að fjöllyfjameðferð, þar á meðal eru margir meðferðaraðilar, brotakennt heilbrigðiskerfi og skortur á lyfjarýni. Nýlega er hafin innleiðsla hér á landi á miðlægu lyfjakorti sem vonir eru bundnar við að sýni á hverjum tíma nákvæmlega það sem einstaklingurinn tekur inn.

Lyfjaheldni getur skerst á efri árum. Koma þar til flókin og mörg lyfjafyrirmæli, vitsmunaleg hnignun ásamt með félagslegum og efnahagslegum þáttum. Skert lyfjaheldni getur leitt af sér takmarkaðan árangur meðferðar og þar með verra heilsufar. Sem eitt svar við þessu hefur nú breiðst út vélskömmtun lyfja. Einstaklingurinn fær senda heim rúllu með lyfjaskömmtum hvers tíma á hverju degi og fyrir ákveðinn fjölda vikna, oft 4 til 6 vikur í senn. Læknar gefa út lyfseðla fyrir heildarmeðferðinni til allt að 12 mánaða. Loks eru komin tæki sem geta spýtt út úr sér lyfjaskammti hvers tíma á deginum. Þetta getur bætt lyfjaheldni og stutt þá sérstaklega sem eru með byrjandi vitræna skerðingu.

En vélræn lyfjaskömmtun hefur óvæntar hættur í för með sér. Þá er farið að meðhöndla öll lyfin sem eitt. Fólk nær ekki að skilja hvað hver tafla gerir. Auk þess er það gert erfiðara þar sem skömmtuð eru mismunandi samheitalyf frá einum tíma til annars. Þá er veruleg hætta á því að eftirfylgd með hinum margvíslegu undirliggjandi sjúkdómum sé ekki með þeim besta hætti sem ætti að vera. Þar er átt við að einstaklingurinn sé metinn sérstaklega út af hverjum sjúkdómi og meðferð þess sjúkdóms á því millibili sem sjúkdómurinn kallar á og með þeim mælingum og rannsóknum sem kunna að eiga við. Árleg endurnýjun á lyfseðlum brestur á og undan henni verður ekki vikist.

Fjöllyfjameðferð hefur verið tengd aukinni hættu á byltum, vitrænni skerðingu og auknum sjúkrahússinnlögnum. Þannig sýndi rannsókn á innlögnum 75 ára og eldri á lyflækningadeild Landspítala í Fossvogi fyrir allnokkrum árum að tæplega 10% innlagna var beinlínis orsökuð af lyfjum. Dæmi eru: réttstöðublóðþrýstingsfall vegna þvagræsilyfja, hægur hjartsláttur og yfirlið vegna beta hamlandi lyfja notuð við háþrýstingi, sykurfall vegna sumra sykursýkislyfja, þar með talið insúlíns, lækkað matarsalt með óráði vegna ákveðinnar tegundar af þunglyndislyfjum. Fyrir hvern og einn einstakling eru líkur á slíkum aukaverkunum litlar. Vönduð eftirfylgd dregur úr líkindum aukaverkananna, þó að aldrei verði við öllu séð.  

Fjöllyfjameðferð eykur verulega álag sjúkrahúsum og geta einnig leitt til til frekari fylgikvilla hjá öldruðum sjúklingum sem þurfa að leggjast inn.

Byltur eru leiðandi orsakir áverka eldra fólks, sér í lagi mjaðmabrota, en lyf með áhrif á jafnvægi og vitræna getur geta legið þar að baki. Þá getur vitræn skerðing, bráð eða langvinn, orsakast af notkun geðlyfja eða flókinnar lyfjameðferðar.

Þannig ná fjárhagsleg áhrif fjöllyfjameðferðar yfir mun meira en beinan lyfjakostnað, þar sem slík meðferð felur í sér aukna nýtingu á heilbrigðisþjónustunni, svo sem komur á bráðamóttöku, innlagnir á sjúkrahús, eins og að ofan greinir, en einnig aukningu í heimastuðningi vegna lyfjaumsýslu.  

Fjöllyfjameðferð getur og haft veruleg áhrif á lífsgæði eldra fólks, þar sem hún getur haft áhrif á færni, sjálfsbjargargetu og almenna vellíðan. Álagið af því að taka mörg lyf á ýmsum tímum getur leitt til streitu eða þeirrar tilfinningar að einstaklingurinn sé að missa tökin á heilsu sinni. Að lyfjameðferð sé bæði árangursrík og viðráðanleg er lykilatriði í að viðhalda lífsgæðum eldra fólks.

Heildræn lyfjarýni af hálfu klínísks lyfjafræðings í samstarfi við meðhöndlandi lækni er mikilvæg, en þá er reynt að varpa ljósi á nauðsyn, virkni og öryggi hvers lyfs sem einstaklingurinn tekur. Lyfjum er hætt sem ekki eru talin lengur gagnleg, hugsanlega skaðleg eða hafa mikla áhættu á aukaverkunum. Leitast er við að finna jafnvægi milli ávinnings og áhættu hvers lyfs með hliðsjón af heilsufari einstaklingsins, óskum og lífslíkum.

Fræðsla fólks um eigin lyf, þar með talið tilgang þeirra og hugsanlegar aukaverkanir eflir lyfjalæsi og gerir því kleift að taka virkan þátt í eigin meðferð. Sameiginleg ákvarðanataka og persónulegar meðferðaráætlanir auka lyfjaheldni og tryggja að meðferðin er í samræmi við markmið og óskir einstaklingsins. Slíkt verklag þarf að tryggja öllu eldra fólki með langvinna sjúkdóma.

————————————————————-

Pálmi V. Jónsson er lyf- og öldrunarlæknir, prófessor emeritus við Læknadeild Háskóla Íslands.

Deila