Endurhanna þarf heilbrigðisþjónustu fullorðinna

29. janúar, 2025

Stóra samfélagsverkefnið

Lengi hefur verið ólga í umræðunni um heilbrigðismál fullorðinna. Hugsanlegar lausnir eru fábrotnar og taka ekki mið af grundvallarbreytingum sem orðið hafa á viðfangsefninu. Ef útfærsla þjónustunnar er óbreytt verður niðurstaðan ævinlega hin sama. Sá raunveruleiki speglast í efnislega samhljóða fréttum um árabil. Það er óraunsætt að leysa flókin mál með einföldum lausnum, hvað þá að mál leysist af sjálfu sér. Við þurfum byltingarkennda  heildstæða nálgun á verkefni heilbrigðisþjónustu fullorðinna. Þá nálgun mætti kalla fjórða þróunarstig íslenskrar heilbrigðisþjónustu eða Stóra samfélagsverkefnið.  

Segjum að fyrsta þróunarstig íslenskrar heilbrigðisþjónustu hafi hafist 1760, þegar fyrsti Landlæknirinn, Bjarni Pálsson, tók við embætti. Í kjölfarið kom læknir í hvern landsfjórðung en síðar héraðslæknar í víðfeðmum héruðum. Landlæknar á þessum tíma beittu sér fyrir menntun ljósmæðra. Ævilíkur við fæðingu voru um það bil 40 ár árið 1840. Segjum að annað þróunarstig íslenskrar heilbrigðisþjónustu hafi hafist þegar læknaskóli var stofnaður 1876 og sjúkrahús komu til sögunnar, m.a. Landakotsspítali 1902 og Landspítali 1930. Með sjúkrahúsunum komu hjúkrunarfræðingar. Ævilíkur við fæðingu höfðu nú vaxið í um það bil 68 ár árið 1950, þó aðeins að hluta til fyrir tilstilli heilbrigðisþjónustunnar.

Um 1970, þegar ævilíkur við fæðingu voru um það bil 72 ár, var fyrsta heildstæða heilbrigðislöggjöfin sett og þriðja þróunarstig heilbrigðisþjónustunnar hafið. Þá var  heilsugæsla skilgreind og útfærð á landsvísu og öflug mæðra- og ungbarnavernd fest í sessi. Á þessu tímabili snýst læknisþjónusta um að sigrast á bráðum sjúkdómum, einum í einu.   Gott dæmi er hinn mikli kraftur sem leysist úr læðingi í baráttunni við hjarta- og æðasjúkdóma en þeir hafa umbreyst  í langvinna sjúkdóma með stórbættum horfum. Viðurkennum og þökkum fyrir  mannauðinn innan heilbrigðisþjónustunnar sem í gegnum árin hefur skilað okkur fram á veginn með miklu harðfylgi, oft við erfiðar aðstæður.

Í ár, 2024, eru ævilíkur við fæðingu 81 ár fyrir karla og 83 ár fyrir konur. Nú ættum við að draga línu í sandinn og segja að fjórða þróunarstig heilbrigðisþjónustunnar sé hafið. Það dugar alls ekki lengur að sinna einum sjúkdómi í einu í sundurlausu kerfi. Fjármagn nýtist illa og lífsgæði fólks ná ekki þeim gæðum sem efni standa til. Þetta er tímabil fullorðinna með fjölveikindi og færnitap, tímabil innflytjenda og tímabil stigvaxandi nýjunga í heilbrigðistækni og lyfjameðferð. Mikill fjöldi ferðamanna eykur álag.

Heilbrigðiskerfið þarf að endurbæta með því að fella niður múra milli þjónustuaðila, semja um verkaskiptingu, nýta teymisvinnu til hins ýtrasta, safna rafrænum gögnum í rauntíma og nýta til umbóta, og útvíkka aðgengi að þjónustu tafarlaust á réttum stað. Þetta og margt fleira hef ég bent á í undanfarandi greinum, sjá töflu. Þau fjölmörgu tækifæri sem ég sé til umbóta byggja á menntun, þekkingu á alþjóðlegri þróun og reynslu á eigin skinni síðastliðin 30 ár á Íslandi.

Allt er þetta framkvæmanlegt og fleiri úrræði munu koma til, þegar grannt verður skoðað. Horfa þarf sérstaklega til tækniframfara og nýsköpunar og taka þær upp svo fljótt sem verða má. Með ferskri sýn, fjölbreyttum aðgerðum og víðtækri útfærslu má ná verulegum umbótum og bættum lífsgæðum fólks á efri árum og bættri líðan þeirra sem veita þjónustuna og brenna fyrir starf sitt. Til mikils er að vinna og ekki val að láta reka á reiðanum.  

Stóra samfélagsverkefnið gengur út á að mæta þörfum og skapa rými fyrir eldra fólk innan heilbrigðisþjónustunnar. Með því að útfæra þjónustuna ítarlega stig af stigi hinna langvinnu sjúkdóma hámarkast líkur á því að allt fari svo vel sem verða má. Leiðarstefið ætti að vera hið fornkveðna: að styðja fólk til sjálfstæðrar búsetu heima svo lengi sem kostur er með öflugri teymisþjónustu, þar með talið 24 tíma þjónustu þegar þörf er á, og allt til enda lífs fyrir þá sem það kjósa. Lífsskrá, þar sem fólk tjáir óskir sínar þegar kemur að alvarlegum veikindum er mikilvægt tæki til að virða sjálfsákvörðunarrétt einstaklingsins í alvarlegum veikindum og við lífslok.  

Endurnýjun Landspítala hefur verið kallað Hringbrautarverkefnið. Það hefur kostað gríðarlega yfirlegu, mannafla og fjármagn. Stóra samfélagsverkefni fullorðinna er engu smærra í sniðum. Í raun er öll heilbrigðisþjónustan undir. Hvernig mætti vinna slíkt þrekvirki?

Ráðuneytisstjóri heilbrigðismála ætti að vera í fararbroddi undir vökulu auga heilbrigðisráðherra. Skipurit ráðuneytisins verður að útfæra í veigamiklum atriðum með Stóra samfélagsverkefnið í huga. Kalla þarf til lykilfagaðila að borðinu með öflugum stuðningi aðferða-, skipulags- og verkfræðinga, sjá greinina um týnda hlekkinn. Stýrihópur innifæli forstjóra Landspítala, forstjóra heilsugæslu og forsvarsmenn hinna ýmsu sérgreina læknisfræði og faghópa heilbrigðisþjónustu.  Heilbrigðisþjónustan þarf að vinna saman sem ein vel samhæfð heild. Samlíking sem kemur í hugann er vel samhæfð sinfóníuhljómsveit.

Greinar birtar í Morgunblaðinu um heilsutengd málefni eldra fólks

Forvarnir og efri árin – 29. apríl, 2024

             Heilsubrestur á efri árum – 9. október, 2023

             Lyf – hið góða og hið vandasama – 13. apríl, 2024

             Fjöllyfjameðferð – 2. apríl, 2024

Hin þungbæra bið – 19. apríl, 2024

Læknaskortur – 26. febrúar, 2024

Hin einfalda öldrunarþjónusta – 27. október, 2023

Týndi hlekkur öldrunarþjónustunnar – 18. janúar, 2024

             Gagnadrifin öldrunarþjónusta  – 13. október, 2023

Stuðningur vegna langvinnra sjúkdóma – 16. mars, 2024

                           Umönnunarálag

Hvíldarinnlagnir eða Skammtímadvöl með andlegri og líkamlegri örvun

Sólarhringsþjónusta Heilsugæslunnar Heima – 2. febrúar, 2024

Bráðasjúkrahúsið Heima – 30. janúar, 2024

Tvö sjúkrahús í Reykjavík 2030 – 16. febrúar, 2024

Hjúkrunarheimili – Er kominn tími á sérhæfingu? – 5. mars, 2024

Endurhanna þarf heilbrigðisþjónustu fullorðinna

Eldra efni birt í Morgunblaðinu af undirrituðum, einum eða í samvinnu við aðra: 

Geðheilbrigðisþjónusta eldra fólks

             Sambýli fyrir eldra fólk með einmanakennd, þunglyndi og kvíða

             Lífsskrá

Höfundur er lyf- og öldrunarlæknir, prófessor emeritus við Læknadeild Háskóla Íslands.

Deila