Heilsubrestur á efri árum

29. janúar, 2025

Ef það væri ekki fyrir heilsubrest og færnitap, þá væri ekki þörf fyrir öldrunarþjónustu. Af því leiðir nauðsyn á að skilja sjúkdómabyrði fólks á efri árum til að geta skipulagt skilvirka og hagkvæma þjónustu sem stuðlar að eins góðum lífsgæðum og kostur er. Lífslíkur fólks eru stöðugt að lengjast og fjöldi einstaklinga með marga langvinna sjúkdóma fer því ört vaxandi.

Auk aldurstengdra breytinga í öllum líffærum sem stigmagnast með árunum, safnast langvinnir sjúkdómar á fólk. Ef litið er á allt eldra fólk, þá tvöfaldast algengi hvers langvinns sjúkdóms í samfélagi eldra fólks á hverjum fimm árum. Og sérhver einstaklingur safnar á sig mörgum sjúkdómum samtímis. Þannig getur 85 ára manneskja búist við að vera með 4-6 sjúkdóma og á mörgum lyfjum. Alvarleiki birtingarmyndarinnar er ekki aðeins tengdur fjölda langvinnra sjúkdóma heldur ræðst húnaf samanlögðum áhrifum erfða, lífsstíls, hegðunar, sjúkdóms-og félagslegra þátta á allri ævinni. Mikill breytileiki milli einstaklinga torveldar stöðlun meðferðar og umönnunar.

Þegar sjúkdómabyrði þyngist tapar fólk sjálfsbjargargetu og færni. Tæplega tíunda hver innlögn fólks 75 ára og eldra á lyflækningadeildir sjúkrahúsa eru vegna aukaverkana lyfja. Fimm prósent eldra fólks leggst endurtekið inn á sjúkrahús á einu ári og sjö af hundraði alloft. Um það bil 10% einstaklinga 65 ára og eldri eru á bakvið 60% útgjalda til heilbrigðismála. Á hverjum tíma eru lang flestir við góða eða þokkalega heilsu og færni, en 10% með hratt versnandi heilsu og 5% með alvarlegan heilsu-og færnibrest. Þannig er það tiltölulega afmarkaður hópur sem stendur höllustum fæti á hverjum tíma og knýr áfram þörfina fyrir öldrunarþjónustu. Sambærilegur hópur fengi vildarþjónustu hjá flugfélagi.

Hjarta-og æðasjúkdómar, þar á meðal kransæðasjúkdómar, hjartabilun, hjartsláttartruflanir, heilablóðfall, háþrýstingur og hjartalokusjúkdómur eru leiðandi sjúkdóma-og dánarorsakir. Flestir hjarta-og æðasjúkdómar deila að hluta sama meingerðarferli og tengjast því oft í sama einstaklingi. Sykursýki magnar upp þessa sjúkdóma og nýrnabilun er iðulega samtengd. Krabbamein vaxa í nýgengi fram til 85 ára aldurs. Tauga-og geðrænir sjúkdómar, þar á meðal heilabilun, Parkinsonsveiki og þunglyndi eru stigvaxandi orsök sjúkdómsbyrði. Öndunarbilun, oftast tengd reykingum,er fyrirferðarmikil. Slitgigt í mjöðmum og hnjám og beinþynnig keppa um aðalhlutverkin hjá mörgum einstaklingum. Alkóhólismi og fíkn í róandi-og verkjalyf taka umtalsverðan toll af eldra fólki en þessi þáttur er vanmetinn og úrræðaleysi mikið.

Langvinnir sjúkdómar eiga margt sameiginlegt og þannig glímir fólk ekki aðeins við hin sértæku viðfangsefni sjúkdómsins heldur einnig við afleidd einkenni. Dæmi um afleidd einkenni langvinnra sjúkdóma eru vitræn skerðing, tímabundin eða langvinn, hreyfiskerðing, lystarleysi og vannæring, þunglyndi og kvíðaröskun, þvag-og hægðaheldnivandi og byltur. Þungbær sjúkdómseinkenni ogleiðandi erutil dæmis mæði, þrekleysi og alvarlegir verkir.

Af framanskráðu má ljóst vera að greining, meðferð og umönnun eldra fólks með langvinna sjúkdóma eru fjölþátta. Áhersla nú í læknisfræði er á nákvæma og persónulega meðferð, sem tekur til erfða þátta, lífsstíls og umhverfis einstaklingsins og tækifærin liggja oft í hinu sértæka fremur en hinu almenna. Gagnvart einstaklingum með marga langvinna sjúkdóma á efri árurer hins vegar erfitt að beita nákvæmni læknisfræði. Samsetning langvinnra sjúkdóma er mjög breytileg. Auk langvinnra sjúkdóma eru virkni, vitsmunir, menntun, félagslegir þættir og lífsstíl ásamt persónu einkennum það sem þarf að hafa í huga við einstaklingsmiðun meðferðar-og umönnunarferlisins. Sjúkdómar geta safnast saman vegna þess að þeir deila sameiginlegum áhættuþáttum og eða meinalífeðlisfræðilegum ferlum, eða einn sjúkdómur veldur beintöðrum. Mikill fjöldi samsetninga einstakra þátta getur ákvarðað klínískar svipgerðir í þessum hópi og skilningur á samspili þeirra er áskorun. Með hliðsjón af margbreytileika fólks með langvinna sjúkdóma, er möguleg lausn til að einfalda einstaklingsmiðaða nálgun, með því að finna mynstur eða klasa langvinnra sjúkdóma.

Tímanleg og hnitmiðuð greining á heilsubresti , þar sem læknir er virkur félagi í teymi, ásamtmeðfjölbreyttum einstaklingsmiðuðum úrræðum er grunnar að bættu lífi fólks á efri árum.

Pálmi V. Jónsson, lyf og öldrunarlæknir, prófessor emeritus við Læknadeild Háskóla Ísland

Deila