Læknaskortur

29. janúar, 2025

Það blasir við læknaskortur á Íslandi. Skorturinn er tilfinnanlegur innan heilsugæslu, bæði í þéttbýli og úti á landi. Fjölmargir hafa ekki ákveðinn og nafngreindan heimilislækni og bið eftir þjónustu er oft í vikum talin. Það er einnig hörgull á sérfræðingum í ýmsum sérgreinum læknisfræðinnar. Þessi staðreynd hefur margvísleg áhrif á það fólk sem ekki fær viðeigandi þjónustu á réttum tíma. Líf og limir geta verið í hættu og lífsgæði verri en vera þyrftu. Skorturinn leiðir einnig af sér óhóflegt álag á þá lækna sem starfa og standa vaktina með merkjanlegum áhrifum á andlega og líkamlega líðan margra þeirra.

Læknaskortur hefur komið niður á greiningu og eftirfylgd með langvinnum sjúkdómum, en langvinnir sjúkdómar skýra að miklu leiti heilsubrest eldra fólks. Ég hef lagt mig fram um að benda á hversu mikilvægt það er að bregðast við langvinnum sjúkdómum frá fyrsta stigi og láta ekki af eftirfylgd, auk þess að benda á ýmis ný bjargráð í útfærslu þjónustunnar. Margir kolleganna skilja og sjá stöðuna. En sumir segja: hvernig í ósköpunum á ég að sinna nýjungum og bæta þjónustu þegar ég kemst ekki yfir það sem á dynur á hverjum degi? Hvernig hefur þetta komið til, þvert á spár fyrir 30 árum?

Mannfjöldi hefur vaxið mjög. Nú eru Íslendingar tæplega 390 þúsund. Innflytjendur eru liðlega 71 þúsund og ferðamenn að meðaltali 200 þúsund á dag, heildarfjöldi tæp 600 þúsund á dag. Fólk lifir nú lengur og er með fjölbreyttari þarfir. Meðferðarmöguleikar vaxa þar sem lækningu var ekki að fá, og meira er um flókna og mannaflafreka meðferð.

Læknisstarfið í stórum greinum hefur umbreyst í íþyngjandi skrifstofuvinnu. Með tölvuvæðingu eyða læknar norðan og sunnan við helmingi af tíma sínum við tölvuskráningu. Umsýslan er farin að skerða verulega samskipti við þá skjólstæðinga sem þeir þó sjá. Fyrir 40 árum var skráning lesin inn á segulband en læknaritarar skráðu. Nú eru læknar orðnir læknaritarar í hálfu starfi. Sjálft sjúkraskrárforritið er óþjált, miklar tafir þegar flakka þarf milli kerfa og afar erfitt er að fá heildarmynd af viðfangsefnum á skömmum tíma. Samtenging milli allra þeirra sem veita sama skjólstæðingi þjónustu er sömuleiðis ófullkomin. Þá eru læknar beðnir um margvísleg vottorð og tilvísanir.

Margt af þessu hefur þegar komið fram og að sönnu er ákveðin vinna í gangi til umbóta. En sú vinna gengur of hægt. Frekari tölvuþróun og aðstoð gervigreindar mun hjálpa til, til dæmis þannig að tala megi til tölvu sem skráir upplýsingar beint. Þróa þarf leiðir fyrir aðrar heilbrigðisstéttir en lækna að skrá heilsufarsupplýsingar í gild og áreiðanleg matstæki. Verkferlar, fjölfagleg teymisvinna og þróun tölvutækni gertur skapað meiri tíma fyrir lækna til þess að sinna skjólstæðingum sínum.

Fjölgun útskrifaðra lækna hefur verið langt undir þörf. Hærra hlutfall af læknum sem fara í sérnám erlendis nú en áður ílengist erlendis. Það var erfitt að fá læknisstöðu á Íslandi fyrir 30-40 árum, en þá skiluðu um 85% lækna sér aftur til Íslands eftir sérnám. Nú skila sér mun færri og seinna en áður, enda þótt að ófylltar læknisstöður séu til staðar. En það er auðveldara fyrir lækna að lifa og starfa erlendis vegna tíðra og tiltölulega hagkvæmra samgangna auk þess að myndsímasamskipti eru auðveld heimsálfa á milli. Loks er það svo að þorri yngri lækna eru meðvitaðir um gildi þess að rækta sig og fjölskylduna. Þannig er ekki sjálfgefið að læknar vilji vinna myrkranna á milli og standa tíðar, langar og strangar vaktir.

Vinnumarkaður lækna er alþjóðlegur. Við höfum misst marga lækna úr landi þess vegna. Auk þess að útskrifa fleiri lækna, eins og stendur til að gera, þá þarf að leggja höfuðáherslu á að laða íslenska lækna aftur heim. En ekki má gleyma því að við getum boðið erlendum læknum störf á Íslandi. Það gerist nú þegar í nokkrum mæli. Það er bráðupplagt í greinum sem kalla ekki á mikil og flókin samskipti við skjólstæðinga og enska getur verið mál til samskipta milli lækna. En þennan þátt má útfæra nánar.

Fjöldi innflytjenda er nú liðlega 70 þúsund víðsvegar að úr heiminum.  Fólk sem sækir atvinnu hingað, alþjóðlega vernd eða kemur af fjölskylduástæðum. Þetta er fólk í afar misjöfnum aðstæðum og margir með ómetnar þarfir og áföll. Reynt er að taka þessa einstaklinga inn í heilbrigðisþjónustuna eins og hún er almennt skipulögð og þá er stuðst við túlka sem er tímafrekt. Auk þess skortir á kerfisbundna nálgun viðfangsefnanna, sem geta verið breytileg eftir því hvar fólk átt uppruna og nánari aðstæðum. Til að bæta þjónustu við þessa einstaklinga og til þess að minnka álag innan heilbrigðisþjónustunnar og gera hana skilvirkari mætti ráða erlenda lækna til starfa til að sinna þessum skjólstæðingum.  

Skilgreina má stærstu hópana eftir uppruna og ráða lækna frá því landi sem í hlut á. Þannig eru nú 23000 einstaklingar frá Póllandi búsettir á Íslandi. Ef það telst eðlilegt að 1500 skjólstæðingum sé þjónað af einum heimilislækni, mætti ráða 20 heimilislækna frá Pólalandi til þess að sinna þessum hópi. Fimmtán í vinnu á hverjum tíma og fimm til að dekka umsamin frí og veikindi. Þessi hópur lækna fengi takmarkað lækningaleyfi til þess einvörðungu að sinna Pólverjum. Þeir yrðu þjálfaðir í stöðlum íslenskrar heilbrigðisþjónustu sem þeir yrðu að framfylgja. Hugsa mætti á sambærilegan hátt um aðra hópa sem ná þeim þröskuldi að réttlæta þessa nálgun. Fyrir þá innflytjendur sem ekki réttlættu að ráðnir yrðu læknar frá þeirra málsvæði mætti ráða enskumælandi lækna. Lækningaleyfi þeirra yrði takmarkað á sama hátt og að ofan við læknisstörf gangvart innflytjendum. Með sambærilegum hætti mætti ráða erlenda hjúkrunarfræðinga til starfa sem þyrftu ekki að kunna íslensku.

Loks eru það ferðamennirnir. Hinn mikli fjöldi þeirra kallar á læknisþjónustu, annars vegar vegna smærri viðfangsefna en hins vegar vegna alvarlegra veikinda og slysa. Nú er ætlast til að reglubundna heilbrigðisþjónustan sinni þessu fólki. Hvað smærri tilvik varðar væri hægt að ráða enskumælandi lækna sem hefðu lækningaleyfi til að annast einvörðungu þetta fólk. Umfang og staðsetning sérstakra læknastöðva vegna ferðamanna færi eftir nánari greiningu á dreifingu þeirra um landið. Setja mætti upp stöð í Reykjavík, Suðurlandi, Austurlandi, Akureyri og Vesturlandi. Draga mætti saman þjónustuna að vetri. Frá fjárhagslegu sjónarmiði séð þyrfti verðlagning þjónustunnar að vera með þeim hætti að hún væri að fullu greidd af ferðamönnunum eða tryggingum þeirra.

Lausnir á læknaskorti á Íslandi hljóta að verða margþættar. Við erum ekki lengur eyland. Alþjóðavæðingin getur fært okkur erlenda lækna til þess að veita góða þjónustu öllum þeim erlendu einstaklingum sem hingað koma og þannig létt undir með heilbrigðisþjónustunni í heild sinni. Með margvíslegum öðrum hætti, í líkingu við það sem tæpt hefur verið á, er sömuleiðis mögulegt að draga úr álagi og skapa aðstæður fyrir íslenska lækna að sinna störfum sínum af þeirri kostgæfni sem þeir óska sér og skjólstæðingum sínum.

Pálmi V. Jónsson, lyf og öldrunarlæknir, prófessor emeritus við Læknadeild Háskóla Íslands.

Deila