Þegar tekist er á við flókið viðfangsefni er þægilegt að ímynda sér að lausnin sé ævinlega einföld og skýr. Þessi nálgun er allsráðandi þegar kemur að öldrunarþjónustu á Íslandi. Kosturinn við þessa nálgun, væri hún rétt, er að allir geta sammælst eftir stutta skoðun um að allsherjar lausn öldrunarþjónustunnar sé að byggja hjúkrunarheimili. Þessi ranga hugmynd er grundvöllur að umræðu sem er bæði árviss og einsleit.
Það er bent á að biðlistar eftir varanlegri dvöl á hjúkrunarheimili séu langir. Þríliðu er beitt og þörf fyrir hjúkrunarrými er áætluð í beinu hlutfalli við fjölgun eldra fólks. Megin áhersla er á þjónustu á hæsta stigi, sem er hjúkrunarheimilisdvöl, en hnýtt er við að styðja beri einnig heimahjúkrun í þeirri mynd sem við þekkjum.
Útgjöld til hjúkrunarheimila á ári er 52.6 milljarðar 2023 en til heimahjúkrunar 5.3 milljarðar. Lagt er til að það fari nærri lagi að byggja eitt hundarð manna heimili á ári næstu 10 árin. Eitt rými kostar 65 milljónir í byggingu og rekstur eins rýmis á ári er 16,9 milljónir. 100 rými kosta því 650 milljónir í byggingu og rekstur á ár er síðan 1.7 milljarðar. Þúsund rými kosta þá 6.5 milljarða í byggingu og 17 milljarða í rekstri á ári. Kostnaðurinn við þessa nálgun er stórbrotinn. Með hliðsjón af því hvað lítið er sett í öldrunarþjónustu á samfélagsstigi væri besti næsti leikur að stórefla hana og gjörnýta þau tækifæri sem þar leynast.
Breytileiki fólks er aldrei meiri en á efri árum. Núverandi nálgun líkist helst því að aðeins væri val um tvær skóstærðir. Þessi takmarkaða útfærsla mætir ekki á besta hátt þörfum fjölmargra og getur verið bæði óskilvirk og óhagkvæm. Allt sem er vanrækt eða fer úrskeiðis í öldrunarþjónustu heima leiðir til innlagna á bráðamóttöku og sjúkrahús og þaðan á hjúkrunarheimili. Með takmörkuðum valkostum er fólki þrýst í farveg að hjúkrunarheimili. Þekktur bandarískur bankaræningi, Willie Stutton, var spurður að því hvers vegna hann rændi banka. Svarið var einfalt: þar eru peningarnir. Höfum í huga að 10% einstaklinganna með flóknustu viðfangsefnin standa á bakvið 60% af útgjöldum heilbrigðisþjónustunnar.
Í vissum atriðum öldrunarþjónustunnar er togstreita milli ríkis og sveitarfélaga og kemur þetta niður á þjónustunni. Á því stigi þegar fólk er enn þokkalega sjálfbjarga og skýrt geta sumir engu að síður trauðla búið einir á eigin heimili. Þetta á til dæmis við um fólk sem líður fyrir einmanakennd, viðvarandi þunglyndi og kvíðaröskun. Þjónustuíbúðir á vegum sveitarfélaga sem úthlutað væri af sveitarfélagi eru verðmætur kostur. Nokkuð er um slíkar þjónustuíbúðir á vegum Reykjavíkurborgar, t.d. Dalbraut 27, en engar að finna af þessu tagi hjá öðrum sveitarfélögum í kringum borgina og þótt víðar væri leitað. Fæst sveitarfélög ráða vel við verkefni af þeirri stærðargráðu sem öldrunarþjónustan kallar á. Þau virðast nú flest berjast í bökkum með að halda úti fullnægjandi og góðri þjónustu leikskóla, barnaskóla og þjónustu við fatlað fólk.
Þá er þessi togstreita og sundurleitni í nálgun ástæða þess að mikið púður er nú sett í samþættingu heimahjúkrunar og öldrunarþjónustu sveitarfélaganna. Þessi samþætting er ekki fullnægjandi því að hún gerir ekki ráð fyrir að læknar og aðrar heilbrigðisstéttir séu hluti að samþættingunni. Þennan vanda mætti leysa með því að færa málefni sveitarfélaganna er lúta að heilbrigðisþjónustu til ríkisins. Að því gerðu mætti taka upp heildstæða stefnu á landsvísu og útfæra þjónustuíbúðir sem eins konar sambýli á landsvísu en þau gætu komið í staðinn fyrir svokölluð dvalarrými sem áður þekktust. Kosturinn við slíka útfærslu er að fólk heldur sjálfræði sínu en fær öryggi og greiðir hóflega fyrir þá þjónustu sem það fær. Með þessari útfærslu mætti einnig færa þá félagsráðgjafa sveitarfélaga sem starfa að öldrunarþjónustu yfir á heilsugæslustöðvar. Með því myndi teymisvinna heilsugæslustöðva í málaflokknum enn styrkjast.
Það eru fjölmörg tækifæri til að gera betur í öldrunarþjónustu sem nýta þarf markvisst. Grundvallar nálgun er heildrænt mat á einstaklingum í rauntíma með sérstaka áherslu á þann takmarkaða hóp sem mest þarf á þjónustu að halda. Safna þarf ítarlegum samræmdum gögnum á rafrænu formi sem ekki aðeins stýrir einstaklingsnálguninni heldur einnig gefur gagnagrunn til að þróa fjölbreytt úrræði á samfélagsstigi. Þar er nærtækasta lausnin heimaþjónustumat interRAI, sem við eigum tilbúið. Vönduð greiningarvinna og meðferð hvers einstaklings er nauðsynleg. Nálgunin er teymisvinna lækna, hjúkrunarfræðinga og eftir atvikum sjúkra- og iðjuþjáfara, klínískir lyfjafræðingar, næringarfræðinga og fleiri, enda er grundvöllur þarfa í öldrunarþjónustu heilsubrestur.
Pálmi V. Jónsson, lyf og öldrunarlæknir, prófessor emeritus við Læknadeild Háskóla Íslands.